
Það er fagnaðarefni,að stofnuð hafa verið tvö ný 60+ félög á Norðurlandi,bæði á Siglufirði og á Húsavík.Voru stofnfundir haldnir í þessum mánuði að viðstöddum formanni flokksins,Össuri Skarphéðinssyni en Össur átti stóran þátt í stofnun þessara nýju félaga eldri borgara. Hefur Össur mjög látið málefni aldraðra til sín taka og óspart kvatt til þess að 60+ félög væru stofnuð sem víðast. 60+ á Akureyri hélt ágæta ráðstefnu um málefni aldraðra í nóv. sl. og átti ég þess kost að taka þátt í þeirri ráðstefnu og flytja erindi um kjör aldraðra. Formaður Samfylkingarinnar,Össur Skarphéðinsson tók einnig þátt í þessari ráðstefnu og flutti ræðu. Hefur Össur verið mjög ötull við að heimsækja flokksfélög vítt og breitt um landið.
Innra starf flokksins mikilvægt
Innra starf Samfylkingarinnar er mjög mikilvægt og oft hefur það verið svo gegnum tíðina,að flokksleiðtogar hafa ekki gefið sér tíma til þess að sinna því, þar eð þeir hafa verið önnum kafnir við að sinna þingstörfum,mæta í sjónvarpi og í öðrum fjölmiðlum o.s.frv. Þrátt fyrir slíkar formannsskyldur hefur Össur sinnt innra starfi flokksins mjög vel og það ber að þakka það. Úr því ég er farinn að ræða innra starf Samfylkingarinnar vil ég þakka Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa leyst húsnæðismál Samfylkingarinnar svo myndarlega sem gert hefur verið með hinum myndarlegu höfuðstöðvum flokksins við Hallveigarstíg. Hinar nýju höfuðstöðvar eru Samfylkingunni og formanni hennar til mikils sóma.
Björgvin Guðmundsson
fyrrverandi borgarfulltrúi og stjórnarmaður í 60+ í Rvk. |