
Almenningur fagnar því,að samningar skuli hafa náðst í kjaradeilu kennara og sveitarfélaganna.En kennarar ríða ekki feitum hesti frá kjaradeilunni.Þeir börðust fyrir leiðréttingu á kjörum sínum,vildu m.a. fá hliðstæð kjör og framhaldsskólakennarar. Ríkið lét framhaldsskólakennara fá verulegar kjarabætur og hafði þá engar áhyggjur af stöðugleikanum.En sveitarfélögin höfnuðu því að láta grunnskólakennara fá hliðstæða leiðréttingu.Ríkisvaldið kom sveitarfélögunum til aðstoðar og setti þvingunarlög á kennara,alger ólög.Kennarar höfnuðu miðlunartillögu sáttasemjara vegna þess að hún fól ekki í sér nægilega leiðréttingu á kjörum kennara.Eftir að ólög ríkisstjórnarinnar höfðu verið sett tóku kennarar þann kost að semja um smávægilega leiðréttingu á miðlunartillögunni fremur en að fá á sig úrskurð gerðardóms,sem hefði orðið kennurum mun óhagstæðari. Ríkisstjórnin setti svo ströng ákvæði í gerðardómslögin,að ekki fór á milli mála,að ríkisstjórnin vildi halda kjörum kennara niðri.
Hvar var R-listinn?
Kennarar urðu fyrir miklum vonbrigðum með R-listann í kjaradeilunni.R-listinn var í felum allan tímann sem kjaradeilan stóð og faldi sig á bak við launanefnd sveitarfélaganna.Fjölmiðlar voru alltof vægir við forustumenn sveitarfélaganna. Sveitarfélögin báru ábyrgð á kjaradeilunni.Þau báru ábyrgð á verkfallinu. Strax sl. vor buðu kennarar að gera skammtímasamning og að semja um mjög hóflegar kjarabætur. Þessu höfnuðu sveitarfélögin. Síðan létu þau allt sumarið líða án þess að gera nokkuð í málunum,rétt eins og þau væru að bíða eftir verkfalli. Þetta er ófyrirgefanleg framkoma hjá sveitarfélögunum,þetta er ófyrirgefanleg framkoma hjá R-listanum. Ég sem stuðningsmaður R-listans er mjög óánægður með þessa framkomu listans.
Ég tel,að það eigi að spretta upp samstarfi sveitarfélaganna í launamálum,leggja niður launanefnd og láta hvert sveitarfélag semja fyrir sig. Það er eðlileg afleiðing af atburðunum í kjaradeilu kennara og sveitarfélaganna.
Björgvin Guðmundsson
|