
Framsóknarflokkurinn klifaði á því í síðustu alþingiskosningum,að hann ætlaði að standa vörð um velferðarkerfið og efla það.Þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögur sínar um 20 milljarða kr. skattalækkun sagði Framsókn,að ekki væri unnt að lækka skatta svo mikið án skerðingar á velferðarkerfinu. Framsókn gæti ekki fallist á skattalækkanir,sem skertu velferðarkerfið. Þessi áróður Framsóknar gekk í kjósendur. Þeir trúðu Framsókn og fylgi flokksins,sem var í botni, jókst nokkuð á ný. Það hefur ef til vill bjargað stjórninni.
LOFORÐIÐ SVIKIÐ
En nú hafa heilbrigðisyfirvöld tilkynnt,að komugjöld hjá heimilislæknum og sérfræðingum verði stórlega hækkuð um næstu áramót. Það á sem sagt að láta sjúklingana borga meira. Þannig efnir Framsókn kosningaloforð sitt um eflingu velkferðarkerfisins. Loforðið er svikið. Það sást strax í fjárlagafrumvarpinu hvert stefndi. Þar kom fram,að almenningur á að greiða 700 millj. meira næsta ár en áður vegna velferðarkerfisins. Þannig eru efndirnar á kosningaloforðunum. Þau eru svikin og í stað skattalækkana koma skattahækkanir og hærri komugjöld.
Björgvin Guðmundsson |