
Ræða Össurar Skarphéðinssonar,formanns Samfylkingarinnar, um heilbrigðismál á landsfundi flokksins fyrir skömmu hefur valdið misskilningi hjá mörgum.Össur kvaðst vilja,að kannað yrði hvort opna ætti fyrir þann möguleika,að einkarekstur yrði reyndur að takmörkuðu leyti innan heilbrigðiskerfisins með þeim fyrirvara,að allir sjúklingar hefðu jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags.Kvaðst hann vilja ætla 1 ár til athugunar á málinu en að þeim tíma loknum ætti að leggja málið undir alla flokksmenn í póstkosningu svipað og gert var varðandi afstöðu Samfylkingarinnar til ESB. Margir hafa skilið þetta svo,að Samfylkingin hefði nú þegar breytt stefnu sinni í heilbrigðismálum en svo er ekki. Stefnan er enn óbreytt.
Ég hefi þegar í grein lýst mig andvígan því, að Samfylkingin styðji einkarekstur innan heilbrigðiskerfisins í ríkari mæli en nú á sér stað.Ég hefi stutt þá skoðun mína rökum. En ég tel þó ekki nauðsynlegt að afnema þann einkarekstur, sem nú þegar á sér stað. Og ég er hlynntur því,að félagssamtök reki hjúkrunarheimili og takmarkaða aðra heilbrigðisþjónustu.Í þessu efni geri ég mikinn greinarmun á félagssamtökum og sjálfseignarstofnunum,sem reka sjúkrastofnanir án hagnaðarvonar og einstaklingum,sem reka slíkar stofnanir með ágóða í huga.Ég vil ekki,að opnað sé fyrir þann möguleika, að unnt sé að græða á sjúkrastofnunum.Ef það er gert þurfa sjúklingarnir að greiða hærra fyrir sjúkraþjónustu einkaaðila en á sjúkrahúsum hins opinbera og félagssamtaka.
Björgvin Guðmundsson
|