
Það liggur nú fyrir hvernig ríkisstjórnin hagar svikunum við öryrkja. Svikin munu bitna harðast á öryrkjum 49 ára og eldri,þ.e þeim,sem urðu öryrkjar 49 ára eða eldri. Grunnlífeyrir þeirra átti samkvæmt samkomulaginu,að hækka úr 20.630 kr. á mánuði í 28.000. En samkvæmt svikafrv. ríkisstjórnarinnar mun hann hækka í 21000!Þeir,sem verða öryrkjar 40 ára fá 2 þús. kr. hækkun á mánuði. Öryrkjar, 35 ára og eldri, áttu að hækka í rúmlega 34.000 ( grunnlífeyrir á mán.) en þeir hækka samkvæmt svikafrv. aðeins í 29.000. Grunnlífeyris yngstu öryrkja mun hins vegar tvöfaldast.Ávallt er miðað við hvenær menn urðu öryrkjar. Ungir öryrkjar eru vel komnir að þeirri hækkun en spurning er hvort þessi aðferð stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Er unnt að hækka grunnlífeyri sumra öryrkja um 100% en annarra um nokkrar krónur aðeins af því þeir eru eldri? Ég dreg það mjög í efa,að það fái staðist. Athuga ber,að hér er ekki verið að mismuna samkvæmt læknisfræðilegu mati heldur samkvæmt pólitískri ákvörðun.
Upphaflega var ráðgert,að hækka alla um 2/3 samkomulagsins nú en síðan átti 1/3 að koma til framkvæmda eftir 1 ár. Þetta var tillaga starfshóps,sem vann að undirbúningi frumvarps.Heilbrigðisráðherra ákvað hins vegar að láta yngstu öryrkjana fá tvöföldun grunnlífeyris strax en þá eldri fá sáralitla hækkun. Ráðherra hefur ef til vill haldið,að hann gæti slegið ryki í augu öryrkja með því að láta þá yngstu fá tvöföldun grunnlífeyris á kostnað þeirra eldri.En það tekst ekki.
Nú liggur fyrir ,að Tryggingastofnun ríkisins hafði þegar í febrúar sl. reiknað út að samkomulagið við Öryrkjabandalagið mundi kosta 1 ½ milljarð kr. en ekki rúman milljarð. Sagt er að útreikningur þessi hafi mislagst í heilbrigðisráðuneytinu! Hvað sem því líður er ljóst,að heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á þessu klúðri og hann ber ábyrgð á svikunum við öryrkja. Það er sama hvaða orðhengilsháttur er viðhafður og hvaða útúrsnúningar. Það liggur fyrir,að samkomulagið við öryrkja er svikið.
Björgvin Guðmundsson |