
Utanríkisráðherra flutti ræðu á sjávarútvegsráðstefnu á Akureyri í gær,8.september. Í ræðunni snérist ráðherra algerlega gegn ESB og hugsanlegri aðild Ísland að sambandinu. Vakti þetta mikla athygli,þar eð utanríkisráðherra hefur undanfarin ár verið mjög jákvæður gagnvart ESB og ávallt rætt um ESB á jákvæðum nótum. Einnig vakti þessi umsnúningur ráðherra mikla athygli vegna þess,að fyrir fáum árum flutti hann ræðu á ráðstefnu í Berlín þar sem hann setti fram þá skoðun,að Ísland ætti að geta gerst aðili að ESB án þess að afsala sér yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni.Kvað hann þetta gerlegt með því,að Ísland yrði aðili að sérstöku norðlægu fiskveiðistjórnunarsvæði,sem ekki mundi heyra undir Brussel.
Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar segir,að utanríkisráðherra hafi algerlega snúist í afstöðunni til ESB. Sé ráðherrann greinilega í gíslingu hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Davíð Oddsson tekur við starfi utanríkisráðherra eftir 6 daga. Vitað er,að hann er algerlega andvígur aðild Íslands að ESB og hefur hann haft allt aðra skoðun á því máli en utanríkisráðherra. Hætta var því á því,að mikill ágreiningur yrði upp í afstöðunni til ESB um leið og Davíð tæki við embætti utanríkisráðherra. Halldór hefur því ákveðið að bakka í utanríkismálunum og varpa skoðun sinni varðandi Ísland og ESB fyrir róða,hvort sem hann hefur gert það fyrir þrýsting frá Davíð eða að eigin frumkvæði.
Björgvin Guðmundsson
|