
Ríkisstjórnin fjallar nú um það hvað hún eigi að láta ellilífeyrisþega fá mikla hækkun á lífeyri almannatrygginga vegna nýgerðra kjarasamninga.Hér áður var það lögbundið, að lífeyrir aldraðra hækkaði sjálfvirkt jafnmikið og lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði.En þessi sjálfvirku tengsl voru afnumin 1995. Þá lýsti Davíð Oddsson,þáverandi forsætisráðherra, því yfir,að breytingin ætti ekki að verða ellilífeyrisþegum í óhag. Eða eins og hann orðaði það. Eldri borgarar verða tryggðir bæði með belti og axlaböndum.Með því átti hann við það,að tekið yrði mið bæði af launabreytingum og verðlagsbreytingum við ákvörðun um lífeyri aldraðra.
Í nýgerðum kjarasamningum var samið um 18000 króna kauphækkun strax hjá verkafólki og verslunarmönnum eða ca. 15% kauphækkun og auk þess allt að 5,5% hækkun.Hjá iðnaðarmönnum var samið um 21000 kr. kauphækkun strax.Það er því ljóst,að kauphækkunin var strax við gildistöku samninga 15-20%.Það ætti því að vera alveg ljóst hvað bætur aldraðra frá almannatryggingum ættu að hækka mikið.Þær eiga að mínu mati að hækka um 15-20% eins og launin.Þess vegna er svar félagsmálaráðuneytis til framkvæmdastjóra FEB hið undarlegasta.Samkvæmt því er fjármálaráðneytið að athuga hvað ellilífeyrisþegar eiga að fá mikla hækkun. Það er verið að leita að einhverri meðaltalskauphækkun,sem er nægilega lág, til þess að hún henti öldruðum.
Er ekki kominn tími til að hætta þessum smáskammtalækningum,þegar aldraðir eiga í hlut? Er ekki kominn tími til að hætta að skera bætur til aldraðra niður við trog? Hvernig væri að virða vilja fyrrverandi forsætisráðherra og gæta þess að aldraðir skaðist ekki vegna þess að bætur þeirra eru ekki lengur miðaðar við lágmarkslaun?
Björgvin Guðmundsson |