MIKLAR ERLENDAR SKULDIR ÍSLANDS
Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var á ferð hér á landi fyrir nokkru.Slíkar heimsóknir eru reglulegar og er tilgangur þeirra að gera nokkurs konar úttekt á íslensku efnahagslífi. Umsögn sendinefndarinnar um ástandið hér var nokkuð jákvæð að þessu sinni. Þó gerði sendinefndin alvarlegar athugasemdir við miklar erlendar skuldir Íslands. Hreinar erlendar skuldir námu í árslok 2002 80% af vergri landsframleiðslu.Alls nema erlendar skuldir þjóðarbúsins 130% af vergri þjóðarframleiðslu í ársok 2002. Sagði sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,að þetta væri hæsta hlutfall meðal þróaðra þjóða. Ef litið er á þróun erlendra skulda frá árinu 1995, eða frá því núverandi stjórnarflokkar komust til valda, kemur eftirfarandi í ljós: Árið 1995 námu hreinar erlendar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 50% en í lok ársins 2002 námu þær sem fyrr segir 80%.
Þetta er nokkuð önnur mynd en fulltrúar stjórnarflokksins drógu upp af ástandinu í þessum efnum í kosningabaráttunni.Þá héldu þessir fulltrúar því fram,að þetta ástand væri mjög gott og hefði batnað mikið undanfarin ár.En það er alveg þveröfugt. Árið 1999,þegar síðasta kjörtímabil hófst, námu hreinar erlendar skuldir Íslands sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 49 %. Þær jukust því á kjörtímabilinu úr 49% í 80%! Á meðan hreinar erlendar skuldir Íslands eru meiri en í nokkru öðru þróuðu ríki getum við ekki verið ánægðir með árangurinn í því efni að lækka skuldirnar..
Í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er fjallað um áform ríkisstjórnarinnar um hækkun húsnæðislána og um skattalækkanir. Varað er við hækkun húsnæðislána og bent á,að hækkun þeirra gæti valdið hækkun fasteignaverðs. Í sambandi við áform um lækkun skatta er bent á nauðsyn þess að lækka ríkisútgjöld áður en skattar verði lækkaðir.Er sú athugasemd í samræmi við álit,er fram kom í kosningabaráttunni um,að hætt væri við að framlög til velferðarkerfisins yrðu skert,ef lækka ætti skatta.
Í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er mælt með aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Er sagt,að á þann hátt mætti ná auknu aðhaldi í rekstri og sparnaði.Hér er með öðrum orðum mælt með því,að almenningur greiði meira sjálfur fyrir þjónustuna í þessum greinum. Vafamál er hvort það er í verkahring Alþjóðagjaleyrissjóðsins að mæla fyrir um það hvort ríki láti hið opinbera eða einkaaðila annast mikilvæga þjónustu eins og rekstur heilbrigðiskerfis og menntakerfis. Hér er um mjög viðkvæmt pólitískt mál að ræða og hlýtur það alfarið að vera mál viðkomandi ríkis hvaða leið það velur í þessum efnum.
Björgvin Guðmundsson
viðskiptafræðingur
Birt í DV 2003