Yfirlit:
Upphafssíða
Pistlar
Æviágrip

Bókaútgáfa

Efst á baugi - æviminningar Björgvins Guðmundssonar


Bætum lífi við árin - greinasafnRíkisstjórnin:Misskipting,valdníðsla og valdhroki

laugardagur, 12. febrúar 2005

 

Stjórnmálamenn og fræðimenn hafa fjallað ítarlega um stjórnmál ársins 2004  eins og venja er um áramót.Sitt sýnist hverjum. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar mæra stjórnina og segja aldrei hafa verið eins mikinn hagvöxt  og kaupmáttaraukningu  eins  og í valdatíð núverandi stjórnarflokka. En stjórnarandstaðan segir blikur á lofti í efnahagsmálum,verðbólgan hafi verið 3,9% sl. 12 mánuði og stefni í 4-5% og mikill halli sé á viðskiptum við útlönd.Vöruskiptajöfnuður  hafi stórversnað á sl. ári.Þá  bendir stjórnarandstaðan á,að miskipting hafi stóraukist í þjóðfélaginu,þeir ríku hafi mun meira en áður og þeir fátæku minna.

 

Minni hagvöxtur á áratugnum en áður

 

  Enda þótt ágætur hagvöxtur sé nú um stundir m.a. vegna  virkjunar- og stóriðjuframkvæmda sem fjármagnaðar eru með erlendu lánsfé að miklu leyti er hagvöxtur á undanfarandi áratug  minni en á næstu áratugum þar á undan.Hagvöxtur á mann nam aðeins tæplega 2% til jafnaðar á ári á áratugnum 1991-2002 en á þessu tímabili fór Sjálfstæðisflokkurinn með stjórnarforustu.Hagvöxtur var mikið meiri  á áratugnum 1971-1980 og á viðreisnaráratugnum. Hagvöxtur nam rúmlega 5% á mann til jafnaðar á ári á áratugnum 1971-1980 og  rúmlega 3% á viðreisnaráratugnum  1960-1970.Hið sama kemur í ljós þegar aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna er athuguð. Hún nemur  1,8% á mann til jafnaðar á ári  á áratug Sjálfstæðisflokksins 1991-2002 en nam 5,7% á mann til jafnaðar á ári 1971-1980,  5,2% á ári á mann  á viðreisnaráratugnum 1960-1970 og 2,2% til jafnaðar á ári á mann á áratugnum 1981-1990. Upphrópanir  stjórnarliða um  betri árangur í efnahagsmálum en nokkru sinni fyrr standast því ekki. Og þegar Ísland er borið saman við önnur lönd kemur í ljós,að árangur Íslands 1991-2002 er fremur slakur í samanburði við önnur OECD lönd.

 

 Aukin misskipting og valdníðsla

 

  Það sem einkennir  stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins og samstjórnina með Framsókn er þó fyrst og fremst aukin misskipting í þjóðfélaginu,  valdníðsla og valdhroki.Það mál,sem bar hæst á sviði stjórnmála sl. ár var fjölmiðlamálið. Það var dæmigert mál fyrir valdníðslu og valdhroka stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp,sem stefnt var gegn einu fyrirtæki,þ.e. Norðurljósum, vegna þess að ríkisstjórninni mislíkaði við ráðamenn þess fyrirtækis.Ef frumvarpið hefði náð fram að ganga hefði frelsi fjölmiðla í landinu verið skert verulega.Forseti Ísland neitaði að staðfesta lögin og vísaði þeim í dóm þjóðarinnar  samkvæmt ótvíræðri heimild í stjórnarskrá landsins.Þetta var mikið áfall fyrir foringja stjórnarflokkanna,sem hafa vanist því að geta ráðið því sem þeir vilja ráða.Þeir gátu ekki sætt sig við að verða undir.Svo mikil var óánægja þeirra, að þeir réðust með offorsi á forseta Íslands. Þeir héldu því jafnvel fram,að forsetinn hefði ekki málskotsrétt og annar þeirra lét svo ummælt,að stjórnarskráin væri nú ekkert heilög! Með öðrum orðum: Þegar stjórnarherrarnir höfðu orðið undir létu þeir sér sæma að ráðast á forsetann og að óvirða sjálfa stjórnarskrána. Stjórnarherrarnir máttu ekki hugsa til þess að  þjóðin fengi að greiða atkvæði um fjölmiðlalögin eins hún átti  rétt á samkvæmt stjórnarskránni. Þeir drógu því fjölmiðlalögin til baka og komu í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir vissu að  þeir yrðu undir í almennri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar um málið. –Fleiri dæmi um valdníðslu ríkisstjórnarinnar má nefna: Dómsmálaráðherra braut jafnréttislög við skipan dómara í Hæstarétt og sýndi algeran valdhroka,þegar hann var gagnrýndur fyrir þá embættisveitingu.Og dæmin eru fleiri.

 

 Fátækt hefur aukist

 

  Meira var leitað til Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar Íslands fyrir síðustu jól en áður.Það leiðir í ljós,að fátækt hefur aukist.Það er ljótur blettur á þjóðfélaginu,að stór hópur fólks eigi  ekki til hnífs og skeiðar.Ástæðan er m.a. sú,að tryggingabótum þeirra hópa,er standa höllustum fæti,hefur verið haldið niðri af ríkisstjórninni.Morgunblaðið gerir þessi mál að umtalsefni í forustugrein á gamlársdag og telur nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að draga úr fátækt.Hér skal tekið undir þessi ummæli Morgunblaðsins.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa undanfarið verið að birta háar tölur um það hve kaupmáttur ráðstöfunartekna muni aukast mikið á næstu árum eða fram til 2007.Það er nýtt í stjórnmálum að stjórnarherrar miklist af óorðnum hlutum,sem óvíst er að verði  að veruleika. En stjórnarherrarnir sleppa því að geta um það,að kaupmáttur lífeyris aldraðra og öryrkja  eykst sáralítið  á þessu tímabili.Samtök eldri borgara hafa sagt,að á tímabilinu 1995-2007  aukist kaupmáttur ellilauna eftir skatta aðeins um 9,3% hjá dæmigerðum ellilífeyrisþega (með 45.860 kr. úr lífeyrissjóði).Hvernig geta stjórnarherrarnir horft framan í þjóðina með þá tölu á bakinu? Útkoman er þó enn lakari ef litið er eingöngu á  liðinn tíma,sem er það eina rétta.Ef litið er á tímabilið 1988-2004 kemur í ljós,að kaupmáttur ellilífeyris eftir skatta hefur minnkað um 6,85% ( sami ellilífeyrisþegi og áður).Þetta er afrek liðins tíma. Og ef miðað er við árið 1990 kemur í ljós,að frá því ári hefur kaupmáttur ellilífeyris eftir skatta aukist um 2,4%! Já aukningin nemur 2,4% á því tímabili,sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með stjórnarforustu.Þetta er skammarleg útkoma.

 

Björgvin Guðmundsson

 

Birt í Morgunblaðinu  12.feb. 2005

 N�justu pistlarnir:
Ríkið vanræknir hjúkrunarheimilin, 21.8.2018
Hvers vegna er stjórnarskráin brotin á öldruðum og öryrkjum?, 2.8.2018
Bæta þarf kjör aldraðra strax ekki síðar, 19.7.2018
Eldri borgarar mega hvorki vinna né spara, 21.9.2017
Almannatryggingar fyrsta stoð lífeyriskerfisins, 12.7.2017
Ríkið tók alla "kjarabótina" til baka!, 25.5.2017
Almannatryggingar reka lestina meðal slíkra trygginga á Norðurlöndum, 30.3.2017
Kjör verst settu eldri borgara og öryrkja eru við hungurmörk!, 2.3.2017
Góðærið hefur ekki komið til eldri borgara, 16.2.2017
Eldri borgarar og öryrkjar hafi 400 þúsund á mánuði fyrir skatt!, 2.2.2017
Ríkisstjórnin níðist á kjörum lífeyrisþega!, 1.12.2016
Er búið að mynda stjórn á bak við tjöldin?, 26.11.2016
Fjöldi eldri borgara býr við bág kjör, 16.11.2016
Samfylkingin berjist fyrir launþega og lífeyrisfólk, 15.11.2016
Bæta þarf kjör lífeyrisþega miklu meira en um þessa hungurlús,sem taka á gildi næsta ár, 11.11.2016
Aldraðir og öryrkjar eiga rétt á lífeyri (ekki bótum), 3.11.2016
Margir eiga erfitt með að draga fram lífið!!, 11.8.2016
Hvaða flokkar styðja kjarakröfur aldraðra og öryrkja?, 5.8.2016
Engar kjarabætur í nýjum tillögum um almannatryggingar, 3.8.2016
Bætir Sigurður Ingi kjör aldraðra?, 8.7.2016
Afnema verður endurkröfur á aldraða og öryrkja vegna ofgreiðslu, 3.7.2016
Aldraðir og öryrkjar kjósa kjarabætur!, 14.6.2016
Skerðing vegna atvinnutekna aldraðra eykst!, 4.6.2016
Staða aldraðra og öryrkja óásættanleg, 18.5.2016
Lífeyrir aldraðra á að hækka um 30%, 2.5.2016
76.greinin gildir einnig fyrir verst stæðu eldri borgara og öryrkja!, 21.4.2016
Sigurður Ingi efni kosningaloforðin við aldraða og öryrkja!, 20.4.2016
Mannréttindi stöðugt brotin á öldruðum og öryrkjum, 3.4.2016
Grunnlífeyrir skertur á ný samkvæmt nýjum tillögum ríkisnefndar, 31.3.2016
Lífeyrir aldraðra hjá TR tekinn af þeim við innlögn á hjúkrunarheimili!, 25.2.2016Vefstjórn