
Atburðirnir í Framsóknarflokknum að undanförnu hafa opinberað hvernig síðustu stjórnmálaleiðtogar gamla tímans fara með vald sitt.Breytingar á ráðherraskipan Framsóknar og undirbúningur að leiðtogaskiptum í Framsókn hafa opinberað gerræði og valdsýki leiðtoga gamla tímans.Þessi vinnubrögð eiga ekkert skylt við lýðræði.
Guðni átti að taka við
Rétt er að hafa í huga, að samkvæmt lögum Framsóknarflokksins á varaformaður að taka við formennsku í flokknum, ef formaður segir af sér. Það vill segja, að ef formaður flokksins segir af sér á Guðni Ágústsson varaformaður flokksins að taka við formennsku.Leiðtogaskipti hefðu því ekki átt að vera flókin og ekki þurft að valda neinu klúðri eða skapa nein vandamál. En þegar formaður Framsóknar tilkynnti, að hann hefði ákveðið að segja af sér formennsku var jafnframt ákveðið að reyna að fá varaformanninn til þess að segja af sér um leið og tryggja kosningu Finns Ingólfsssonar sem nýs leiðtoga,formanns,Framsóknarflokksins. Um þessi gerræðislegu vinnubrögð varð ekki sátt í Framsókn. Þá er næst reynt að fá annan framsóknarmann utan þingflokksins til þess að taka við formennsku. Allt miðast þetta við það, að fráfarandi formaður geti ráðið eftirmanni sínum,handvalið hann utan þings svo ekki komi til þess að nýr formaður sé valinn með lýðræðislegri kosningu. Þessi vinnubrögð opinbera það,að engum úr þingflokki Framsóknar er treyst til þess að taka við formennsku í flokknum. Þessi vinnubrögð eru niðurlægjandi fyrir þingmenn Framsóknarflokksins en þó einkum fyrir núverandi varaformann.
Ráðherrasætum úthlutað til þeirra útvöldu
Breytingar á ráðherraliði Framsóknar eru í sama anda og framangreint.Auk “formannskandidats” sem valinn er utan frá eru valdir nýir ráðherrar, sem hafa verið hæfilega þægir flokksformanni.Gengið er framhjá Kristni Gunnarssyni, þar eð hann hefur sagt meiningu sína við flokksforustuna, þar á meðal um Íraksstríðið en hann hefur gagnrýnt harðlega, að Framsókn skyldi styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak. Reynt er að losa sem flest ráðherrasæti til þess að unnt sé að úthluta sætum til þeirra sem hafa verið þægir og/eða þarf að hafa góða. Jón Kristjánsson,sem alltaf hefur verið mjög flokkshollur og handgenginn formanni ákvað að rýma sitt ráðherrasæti af flokkshollustu eins og hann sagði sjálfur en ekki vegna þess að hann væri uppgefinn enda nýkominn í embættið.Hann vissi hvað klukkan sló. Góðu strákarnir þurftu að fá ráðherraembætti,Magnús og Jón.Og ekki var lengur unnt að ganga fram hjá Jónínu.Það var gert eftir þingkosningarnar. Sennilega hefur Hjálmar talað eitthvað óvarlega í látunum undanfarið, þar eð hann fékk ekki ráðherrasæti.Af einhverjum ástæðum var hann ekkert látinn fylgjast með því ráðabruggi,sem var í gangi í Framsókn. Hann virtist algerlega vera utan garðs og vissi ekkert hvað var að gerast enda þótt hann væri formaður þingflokksins. Að vísu vissu fáir aðrir en flokksformaður hvað var í bígerð enda ekki tíðkast að ráðgast við marga.Einræði hefur ríkt í flokknum.
Björgvin Guðmundsson |