
Algert öngþveiti ríkir nú í heilbrigðismálum. Það vantar 1-2 milljarða til þess að halda uppi óbreyttum rekstri á ríkisspítölunum og ríkisstjórnin hefur gefið þau fyrirmæli að halda verði rekstrargjöldum innan ramma fjárlaganna,eða m.ö.o,að skera verði niður um 1-2 milljarða. Það þýðir að segja verður upp 100-200 manns,þar á meðal læknum og skerða verður grunnþjónustu. Stjórnarnefnd ríkisspítalanna er nú að skera niður í samræmi við þessi fyrirmæli heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra. Þegar þessir herramenn eru spurðir að því hvað skera eigi niður og hvort skera eigi niður grunnþjónustu svara þeir því til, að málið sé alfarið í höndum stjórnarnefndar. Þeir þvo hendur sínar af því hvar skera eigi niður en bera þó ábyrgð á niðurskurðinum. Ljóst er,að algert önþveiti mun skapast á ríkisspítölunum og hvert mannsbarn sér, að það verður ekki unnt að skera niður eins mikið og stjórnarherrarnir vilja vera láta. Ingibjörg Pálmadóttir fyrrum heilbrigðisráherra sagði brosandi í sjónvarpsviðtali,að það yrði að láta meiri peninga í sjúkrahúsin. Það mátti skynja milli línanna á því,sem hún sagði,að niðurskurðarferlið væri aðeins sjónarspil!
Björgvin Guðmundsson |