
Guðni Ágústsson varaformaður Framsóknarflokksins sagði í viðtali við Guðmund Steingrímsson á Skjá 1 sl. sunnudag,að sú ákvörðun Íslands að vera á lista hinna staðföstu þjóða hefði ekki verið tekin í ríkisstjórn.Hefði sú ákvörðun verið tekin af Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni.Þegar Guðmundur Steingrímsson heyrði þetta sagði hann,að Kristinn H.Gunnarsson alþingismaður hefði þá haft rétt fyrir sér í þessu efni.Guðni tók undir það.Þessi yfirlýsing Guðna vakti mikla athygli og vangaveltur um mikinn ágreining milli formanns og varaformanns Framsóknarflokksins.
Í gær gaf forsætisráðherra yfirlýsingu um þetta mál en neitaði að ræða það við fjölmiðla. Yfirlýsing forsætisráðherra er alger kattarþvottur og ekkert nýtt er að finna í henni.Þar er málinu áfram drepið á dreif og sagt,að tillögu VG um að hafna árás á Írak hafi verið vísað frá í utanríkismálanefnd og “Íraksmálið” hafi verið rætt í ríkisstjórn 2 dögum fyrir innrás í Írak.Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu stendur það óhaggað,sem forsætisráðherra sagði sjálfur í Kastljósi 6.desember sl.,að engin formleg ákvörðun var tekin í ríkisstjórn um stuðning við innrás í Írak. Og það var ekki lagt fyrir utanríkismálanefnd að Ísland yrði á lista hinna staðföstu þjóða,sem studdu innrásina. Almennar umræður um Íraksmálið skipta ekki máli í því sambandi.
Ljóst er,að Guðni Ágústsson hefur fengið bágt fyrir yfirlýsingu sína í sjónvarpi sl. sunnudag. Í Morgunblaðinu í dag,18.janúar,birtist yfirlýsing frá Guðna þar sem hann dregur nokkuð í land. Er ljóst,að hann hefur fengið fyrirskipun um það. Í sama blaði birtist yfirlýsing frá Árna Magnússyni,félagsmálaráðherra,um að hann ætli ekki að bjóða sig fram gegn Guðna sem varaformaður!Hér er greinilega um valdatafl að ræða í Framsóknarflokknum. Guðna fannst sótt að sér og lét pólitískar yfirlýsingar flakka,sem komu formanni Framsóknar illa. Það er þá gengið í það að miðla málum og Guðni fær nokkurs konar “pólitiska tryggingu” fyrir því að ekki verði reynt að fella hann við varaformannskjör. Þá dregur hann í land í Íraksmálinu. Þannig er pólitíkin.
Björgvin Guðmundsson
|