
Kristinn H.Gunnarsson alþingismaður Framsóknar sat fyrir svörum í kastljósi Sjónvarpsins 1.júní sl.Rætt var um stjórnmál almennt. M.a. spurðu fréttamennirnir Kristin um Íraksmálið. Hann sagði,að það hefði aldrei verið rætt í þingflokki Framsóknar!Ákvörðun um aðild að innrás í Írak hefði verið tekin utan þingflokksins af formönnum stjórnarflokkanna beggja. Er hér enn ein staðfestingin á því,að aðild Íslands að árás á Írak var hvorki lögð fyrir þing né ríkisstjórn heldur ákveðin af þeim tvímenningum,formönnum stjórnarflokkanna.
Er einræði ríkjandi?
Þetta leiðir hugann að því að svo virðist sem einræði sé ríkjandi í Framsóknarflokknum. Formaðurinn einn getur ákveðið að Framsóknarflokkurinn styðji árás á annað ríki.Hann telur sig ekki einu sinni þurfa að ræða það í þingflokki sínum! Mun þetta áreiðanlega vera einsdæmi í Vestur-Evrópu. Áreiðanlega hefur það sama verið uppi á teningnum í sambandi við fjölmiðlafrumvarpð.Þar hafa formenn stjórnarflokkanna fyrst og fremst tekið ákvörðun og síðan hafa óbreyttir þingmenn dansað með. Formaður Sjálfstæðisflokksins ákvað fyrir síðustu áramót að setja þyrfti lög á Norðurljós. Formaður Framsóknar sagði aldrei neitt um það mál í allan vetur. En þegar formaður Sjálfstæðisflokksins ákvað að leggja fram frumvarp um fjölmiðla drattaðist formaður Framsóknar með.Og síðan komu óbreyttir þingmenn í humátt á eftir.
Þreyta í stjórnarsamstarfinu
Í kastljósi Sjónvarpsins sagði Kristinn H.Gunnarsson,að þreyta væri komin í stjórnarsamstarfið. Hann sagði,að hann vildi standa vörð um velferðarkerfið,heilbrigðismálin og menntakerfið. Ríkisstjórnin hefði ekki staðið sig í velferðarmálunum. Ef ekki yrði breyting þar á ætti Framsókn ekki að vera í þessu stjórnarsamstarfi.
Björgvin Guðmundsson
|