Ríkisendurskoðun telur,að undirbúningi á kaupum notaðrar Grímseyjarferju
hafi verið mjög ábótavant. Ríkisendurskoðun farast m.a.
svo orð um málið:
Rekja má mörg þeirra vandamála sem upp
hafa komið upp við endurnýjun Grímseyjarferju
til ófullnægjandi undirbúnings áður en kaup voru gerð.
Nákvæmari greining á þörf, kostnaði og ábata og ítarlegri skoðun á þeirri ferju sem keypt var hefðu skipt verulegu máli þegar mögulegir kostir voru vegnir og metnir. Þá stenst sú aðferð að fjármagna kaup og endurbætur ferjunnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar engan veginn ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu.
Í „Greinargerð Ríkisendurskoðunar um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju“ er bent á að skoðun ferjunnar áður en hún var keypt var ábótavant. Eftir að viðgerðir hófust kom í ljós að ástand hennar var lakara en skoðanir bentu til. Siglingastofnun hafði raunar varað við þessu og mælt með ítarlegri athugun. Ef tekið hefði verið tillit til þeirra ábendinga hefði væntanlega mátt draga verulega úr aukaverkum og þar með kostnaði við viðgerðina. Jafnframt hefði nákvæmari skoðun auðveldað mat á öðrum kostum og samanburð við þá.
Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við losarabrag á kostnaðaráætlunum og skort á formfestu þegar ákvarðanir voru teknar um aukaverk vegna endurbóta á ferjunni. Tíðar og síðbúnar kröfur Grímseyinga, sem yfirleitt hafa komið fram fyrir milligöngu samgönguráðuneytisins, hafa gert Vegagerðinni afar erfitt um vik. Þá hefur það augljóslega vakið nokkra tortryggni hjá verksala að sami aðili hefur annast kostnaðaráætlun, útboðslýsingu og eftirlit með framkvæmdum. Meðal annars af þeim sökum urðu samskipti verksala við eftirlitsaðila og verkkaupa erfiðari en ella.
Ljóst er að fjölmargt í störfum verksalans er gagnrýnivert, t.d. að hann gerði almennt ekki tilboð í aukaverk þrátt fyrir ítrekaðar óskir verkkaupa. Þá hefur framvinda verksins verið mun hægari en samið var um. Verkáætlanir verksalans voru fáar og mjög síðbúnar og almennt ekki staðið við þær, auk þess sem verkbókhald hans hefur ekki verið jafn nákvæmt og skyldi. Margt þykir benda til þess að verkið hafi á ýmsan hátt liðið fyrir skort á skipulagi og virkri stjórnun verksala.
Að lokum telur Ríkisendurskoðun ástæðu til að gagnrýna harðlega að nú þegar hafa verið greiddar tæplega 400 m.kr. úr ríkissjóði til verksins, en í 6. grein fjárlaga 2006 er aðeins veitt heimild til „að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju”. Samkvæmt samkomulagi fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar hafa bæði kaup og endurbætur verið fjármögnuð með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar. Þegar kaupin voru gerð og endurbætur hófust var ekki gert ráð fyrir útgjöldum þeirra vegna á samgönguáætlun. Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð engan veginn ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu.
Í skýrslunni kemur ennfremur fram,að besti kosturinn í
samgöngumálum Grímseyjar hefði verið sá,að gera við gömlu ferjuna,Sæfara. Það hefði verið ódýrasta leiðin og hefði dugað til 2018.
Það er ljóst af skýrslu ríkisendurskoðunar um málið,að fyrrverandi samgönguráðherra hefur orðið á í messunni við ákvörðun um kaup á nýrri ferju.Hann hefði átt að láta gera við gömlu ferjuna. Það hefði orðið ódýrasti og besti kosturinn. Á þessum mistökum ber ráðherrann einn ábyrgð.
Björgvin Guðmundsson
|