
Fjölmiðlar hafa tekið andköf vegna útkomu Samfylkingarinnar í Gallup könnun sem birt var 1.desember sl. Samkvæmt þeirri könnun tapaði Samfylkingin 2% stigum frá könnun Gallups einum mánuði fyrr. Þessi breyting á fylgi Samfylkingarinnar milli mánaða er þó ekki meiri en oft á sér stað á fylgi annarra stjórnmálaflokka milli mánaða.Fylgi allra stjórnmálaflokkanna hefur sveiflast nokkuð á yfirstandandi ári.
Vinstri grænir voru t.d. með 19% fyrir réttu ári.En í apríl-júní voru þeir með 15%. Í September fóru þeir aftur upp í 19 % en féllu niður í 14% mánuði síðar. Nú hafa þeir aftur náð sér upp.En þetta eru talsverðar sveiflur og hafa ekki vakið mikið umtal hjá fjölmiðlum.Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur einnig sveiflast mikið. Fyrir 12 mánuðum var flokkurinn með 35% en í kringum landsfundinn hækkaði flokkurinn og komst í 44% í oktober. Strax mánuði síðar var fylgið komið í 41%.Menn höfðu spáð því,að þegar Davíð hætti mundi fylgið hrynja af Sjálfstæðisflokknum. En það hefur ekki orðið. Þvert á móti jókst fylgið í kringum landsfundinn og við valdatöku Geirs Haarde. Svo virðist sem fylgi Sjálfstæðisflokksins sé nokkuð traust án tillits til foringja.Og mikið umtal eins og virðist vera hringum landsfund og prófkjör hefur meira að segja en hver er foringi.Samfylkingin var með 30% fyrir 12 mánuðum en komst upp í 34% ( í júní) í kringum landsfund flokksins,þegar Ingibjörg Sólrún var kosin formaður.Í oktober var fylgið komið í 29% og nú mældist það tæp 26%. Ég spái því,að Samfylkingin muni fljótlega ná sér á strik og komast í 30% og rúmlega það. Sjálfstæðisflokkurinn mun einnig fljótlega hjaðna á ný þegar nýja brumið er farið af eftir formannsskiptin.
Athyglisvert era ð VG hefur treyst sig í sessi sem róttækur flokkur. Svo virðist sem róttæk stefna þeirra hafi hljómgrunn. Gæti það verið Samfylkingunni vísbending um það,að færa stefnuna ekki um of inn að miðjunni.
Ingibjörg Sólrún hefur staðið sig vel sem formaður Samfylkingarinnar. Það er því ekki unnt að kenna henni um tímabundna niðursveiflu Samfylkingarinnar eins og miklir hægri pennar vilja gera.Ef Samfylkingin heldur sömu stefnu og áður og daðrar ekki við Sjálfstæðisflokkinn fær hún fljótlega sitt fyrra fylgi og rúmlega það.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 7.des. 2005 |