
Friður er nú kominn á í þjóðfélaginu eftir allt fjölmiðlafárið.Menn eru sæmilega sáttir. Þó eru sumir þeirrar skoðunar,að ekki hafi verið heimilt að taka fjölmiðlafrumvarpið úr höndum þjóðarinnar eftir,að forseti vísaði því þangað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málið hafi verið í höndum þjóðarinnar og því hafi þjóðaratkvæðagreiðsla átt að fara fram. Þeir eru þó fleiri,sem telja,að mestu máli skipti,að upphafleg fjölmiðlalög hafi verið felld úr gildi. Óánægja þjóðarinnar hafi beinst gegn þeim og málsmeðferðinni.Lögin hafi verið sett í andstöðu við þjóðina og því hafi verið eðlilegt að fella þau úr gildi.
Spurningin er sú hvernig ríkisstjórnin fari út úr þessu máli öllu. Það er ljóst,að ef þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið fram hefði ríkisstjórnin koltapað henni.Ríkisstjórnin bætir örlítið fyrir mistök sín með því að afturkalla fjölmiðlalögin,fella þau úr gildi. Með því viðurkennir ríkisstjórnin,að hún hafi gert mistök. Stjórnin viðurkennir,að hún hafi haft á röngu að standa bæði varðandi efni fjölmiðlafrumvarpsins og málsmeðferðina alla. Mistök eru mannleg og líklegt er að ríkisstjórnin vinni eitthvað af töpuðu fylgi sínu með því að stíga þetta skref. Ljóst er þó,að ríkisstjórnin stendur mjög illa. Hún hefur tapað fylgi og trausti hjá þjóðinni og það,sem verst er fyrir stjórnina:Það er ekki sama trúnaðartraustið innbyrðis í stjórninni eins og áður. Það er komin einhver uppdráttarsýki í stjórnina. Það er eðlilegt. Stjórnin er búin að sitja mikið lengur en eðilegt getur talist. Í rauninni var líftími stjórnarinnar úti við síðustu kosningar. Stjórnin tapaði miklu fylgi í kosningunum,einkum forustuflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn. Hann lækkaði úr rúmum 40% í 33%. Framsókn hélt áfram að tapa fylgi. Í öllum öðrum vestrænum löndum hefði ríkisstjórn farið frá undir slíkum kringumstæðum. En okkar ríkisstjórn neitaði að fara.Og þegar Framsókn vildi ekki styðja Sjálfstæðisflokkinn lengur til forustu í ríkisstjórninni bauð Davíð Framsókn stól forsætisráðherra aðeins ef Framsókn vildi halda samstarfinu áfram.Framsókn beit á það agn.
Það verða að sjálfsögððu kaflaskil í samstarfi flokkanna 15.september n.k. þegar Framsókn fær fundarstjóra ríkissstjórnarinnar. Sjálfstæðismenn eru ekkert hrifnir af því að láta Framsókn fá stólinn. Frá fyrri tíma er mikil andstaða við Framsókn í Sjálfstæðisflokknum og búast má við,að hún brjótist upp á yfirborðið þegar Davíð fer frá og Framsókn tekur við.Þar við bætist,að mikill ágreiningur er milli flokkanna um viss mál. Ber skattamálin þar hæst. Sjálfstæðismenn vilja lækka tekjuskatta einstaklinga um 20 milljarða en Framsókn er því algerlega andvíg og vill stíga mikið minni skref í skattamálum.Hagfræðingar eru logandi hræddir við miklar skattalækkanir. Fjölmiðlamálið er einnig mikið ágreiningsmál. Það mál er ekki búið.Það kemur upp aftur í haust. Halldór hefur áreiðanlega lofað Davíð því,að taka fjölmiðlamálið upp á ný. En þingmenn Framsóknar vilja ganga mun skemur í því máli en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er því alls óvíst hvernig það mál leysist. Það er sprengiefni í því máli ekki síður en í skattamálunum.Ágreiningsmálin eru fleiri. Það er því alls óvíst,að ríkisstjórnin lifi lengi enn.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 3.ágúst 2004
|