
Heimahjúkrun í Reykjavík er nú í uppnámi eftir,að um 40 starfsmenn hennar hættu störfum um síðustu mánaðamót vegna deilu um kjör ( akstursgreiðslur).Er nú algert neyðarástand í greininni,þar eð ekki er unnt að sinna öllu fólki,sem þarf nauðsynlega heimahjúkrunar við.
Stjórnendur heimahjúkrunarinnar ( heilsugæslunnar) vildu breyta akstursgreiðslum starfsmanna,lækka þær.Á það gátu hjúkrunarfræðingar heimahjúkrunar ekki fallist.Þeir vildu óbreytt ástand í þeim efnum.Stjórnendur heimahjúkrunar héldu fast við sín áform og sögðu 40 hjúkrunarfræðingar þá upp störfum. Talið var í fyrstu,að ætlunin væri að spara með breytingu á akstursgreiðslum hjúkrunarfræðinga. En nú segir heilbrigðisráðherra, að ekki sé ætlunin að spara,heldur að bæta þjónustuna! Er erfitt að skilja hvers vegna heimahjúkrun er öll sett í uppnám og sjúklingar í hættu, ef ekki hefur verið ætlunin að spara.Er ljóst,að deila þessi er algerlega tilbúin og tilefnislaus.Undrun vekur,að búið var að ákveða að taka 50 bíla á leigu fyrir hjúkrunarfræðinga,sem nota átti í stað einkabíla hjúkrunarfræðinga. Verður það án efa dýrara að taka alla þessa bíla á leigu í stað þess að nota einkabíla. Hjúkrunarfræðingar hafa sjálfir borið kostnað af rekstri bíla sinna annan en þann sem aksturspeningar hafa staðið undir. Stjórnmálamenn keppast við að segja,að æskilegt sé að sjúkt fólk og aldrað sé sem lengst í heimahúsum enda mikið ódýrara en að flytja það á sjúkrahús. En síðan geta ráðamenn leikið sér með þennan málaflokk,heimahjúkrun,eins og nú hefur komið í ljós. Verður að gera þá kröfu til stjórnenda heimahjúkrunar og til heilbrigðisráðherra,að deilan verði leyst þegar í stað. |