
Á almennum fundi Félags eldri borgara í Reykjavík,sem haldinn var 17.nóvember sl. kom fram mikil óánægja eldri borgara með kjörin. Skýrt var frá því á fundinum, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að frítekjumark vegna atvinnutekna skyldi vera 25 þúsund krónur á mánuði. Félagsmönnum þótti þetta svo nánasarlegt hjá ríkisstjórninni, að meirihluti fundarmanna vildi skila þessu aftur til ríkisstjórnarinnar! Fram kom á fundinum mikill áhugi á því að eldri borgarar byðu fram í væntanlegum alþingiskosningum.
Neysluútgjöld komin í 201 þúsund á mánuði
Björgvin Guðmundsson úr kjaranefnd FEB flutti ræðu á fundinum og gerði grein fyrir tillögum kjaranefndar um kjaramál. Hann sagði,að kjaranefnd hefði samþykkt, að lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum skyldi miðast við könnun Hagstofunnar um neysluútgjöld og leiðréttast í samræmi við hana í tveimur áföngum. Skyldi lífeyrir einhleypinga, sem ekki væru í lífeyrissjóði hækka í 160 þúsund á mánuði um næstu áramót og leiðréttast að fullu 1.janúar 2008, þ.e. fara í 201 þúsund á mánuði. Tillaga þessi hefði verið lögð fyrir framkvæmdastjórn LEB en LEB hefði ekki viljað fara hærra en í 133 þúsund á mánuði frá næstu áramótum.
Björgvin Guðmundsson
|